Eineltisáætlun 

 

Hvað er einelti?

 

Einelti er þegar einstaklingur verður margendurtekið og á afmörkuðu tímabili fyrir aðkasti á einhvern hátt frá einum eða fleiri aðilum. Einelti getur birst á margan hátt.  

 • Félagslegt einelti - barnið skilið útundan í leik, barnið þarf að þola svipbrigði, augngotur, þögn eða algert afskiptaleysi.  

 • Andlegt einelti - barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algerlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.  

 • Líkamlegt einelti -  gengið er í skrokk á barninu.   

 • Munnlegt einelti - uppnefni, stríðni eða niðurlægjandi athugasemdir. Hvíslast er á um barnið, flissað eða hlegið.  

 • Rafrænt einelti - Neikvæð og skaðleg skilaboð um eða til einhvers sem er komið áleiðis í gegnum: Tölvupóst  - Facebook -  SMS -  YouTube – Spjallrásir -  Teknar myndir og birtar á netinu eða sendar með síma. 

Hver eru áhrif eineltis? 

Áhrif eineltis á einstaklinginn geta verið mismunandi. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann, t.d. hann verður einmana og leiður, sjálfstraustið hverfur, áhuginn fyrir náminu þverr og þolandinn verður spenntur og utangátta í skólanum. Alvarlegustu afleiðingar langvarandi eineltis eru þær að þolandi sýnir neikvæða hegðun, lystarleysi og þunglyndi. Sjálfsvígshugleiðingar hafa einnig sótt á þolendur eineltis. 

Vísbendingar um að nemandi sé lagður í einelti 

 • Vill ekki fara í skólann, alltaf, stundum eða tímabundið. 

 • Er hræddur við að fara í og úr skóla. 

 • Kemur of seint í skólann eða heim úr skólanum. 

 • Fer að ganga verr í skólanum, fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur. 

 • Lokar sig af og hættir að sinna áhugamálum sínum. 

 • Líður illa og vill ekki segja hvað er að. 

 • Verður árásargjarn og erfiður viðureignar. 

 • Sjálfstraustið minnkar. 

 • Grætur sig í svefn og fær martraðir. 

 • Líkamlegar kvartanir og kvíðaeinkenni, t.d. höfuðverkir, magaverkir. 

 • Svefn- og matarvenjur breytast. 

 • Er með skrámur og marbletti sem ekki er hægt að skýra. 

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir 

Ávallt skal haft í huga að fyrirbyggjandi starf gegn einelti er stöðug vinna en ekki átaksverkefni. 

Til þess að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak og ábyrgð nemenda, forráðamanna og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar. Allir þurfa að deila ábyrgð, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða. 

Helstu forvarnir: 

 • skólinn setur sér ákveðin viðmið í samskiptum sem miða að því að allir starfsmenn skólans, nemendur og forráðamenn geti unnið eftir sömu gildum sem stuðla að jákvæðum samskiptum og góðum skólabrag  

 • nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýni tillitssemi, virðingu, ábyrgð, sveigjanleika og umburðarlyndi. Efli sjálfstraust  og samkennd sem stuðlar markvisst að frekari þátttöku í lýðræðislegu samstarfi 

 • umsjónarkennari vinnur með nemendum þar sem bekkurinn setur bekkjarreglur. Haldnir eru  reglulegir bekkjarfundir eða einstaklingsviðtöl þar sem líðan, samskipti og hegðun er rædd 

 • umsjónarkennari fer reglulega yfir eineltisáætlun skólans sem og skólareglur/samskiptareglur með sínum bekk   

 • fagkennarar og aðrir starfmenn  noti þau tækifæri sem gefast til að ræða og þjálfa mikilvægi góðra samskipta  

 • stuðla markvisst að samvinnu heimilis og skóla  

 • á hverju ári er eineltisáætlun skólans kynnt fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra á haustfundum. Umsjónarkennari og bekkjarfulltrúar hvetja til þess að forráðamenn hafi í huga viðmið varðandi afmælisboð og aðrar samkomur  

 • fræðsla um einelti fyrir forráðamenn s.s. í formi fyrirlestra og upplýsinga þar sem eineltisáætlun skólans er vel kynnt og sýnileg foreldrum t.d. á heimasíðu skólans  

 • eineltisáætlun skólans er kynnt í upphafi hvers skólaárs á starfsmannafundi þar sem hún  er endurskoðuð og þau viðmið sem skólinn setur sér í samskiptum eru samræmd. Sú samræming er liður í forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi. Mikilvægt er að bjóða starfmönnum reglulega upp á fræðslu um málaflokkinn   

 • virk gæsla í frímínútum, skólahúsi og vettvangsferðum  á vegum skólans  

 • niðurstöður úr Skólapúlsinum nýttar í vinnu gegn einelti.  

 • skólinn nýti hinn árlega Dag gegn einelti til þess að vekja athygli á mikilvægi góðra samskipta með það að markmiði að vinna gegn einelti   

 • eineltisteymi skólans hittist að hausti og gerir áætlun um forvarnir fyrir skólaárið og fundar reglulega  

 

Aðgerðaáætlun 

Tilkynning um einelti skal berast: 

Ef grunur leikur á einelti skal tilkynna það til umsjónakennara, námsráðgjafa eða skólastjórnenda sem kanna hvort grunurinn sé á rökum reistur. Hægt er að fylla út eyðublað á heimasíðu skólans www.grundo.is 

Tilkynningareyðublað er á heimasíðu skólans 

Eineltisteymi skólans 

Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem í eiga sæti deildarstjóri stoðþjónustu, aðstoðarskólastjóri og  skólastjóri. Auk þeirra taka sæti í teyminu umsjónarkennarar þess bekkjar/árgangs sem einelti kemur upp í hverju sinni. Hlutverk eineltisteymisins er að halda utan um og stýra vinnslu þeirra eineltismála sem upp koma í skólanum. Enn fremur er teyminu ætlað að vera kennurum til ráðgjafar varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir hvað varðar einelti. Sálfræðingur og/eða félagsfræðingur skólans vinnur einnig með teyminu að úrlausn eineltismála eftir eðli málsins. 

 

Ferlið

Þegar kvörtun eða tilkynning um einelti berst (sbr. gátlista kennara) 

 • Teymið/nemendaverndarráð kemur saman og gerir verkáætlun. Íhlutun byggist á eðli og umfangi tilkynningarinnar og alvarleika hegðunarinnar sem lýst er. Aflað er frekari gagna t.d. frá umsjónarkennara og öðrum sem kunna að þekkja til málsins. 

 • Samband er haft við foreldra meints geranda og aðra sem nefndir eru í eineltistilkynningunni. Þeir verða upplýstir um efni hennar og þeim boðið viðtal. Leitað verður frekari upplýsinga hjá aðilum og hlustað á þeirra sjónarmið. 

 • Umsjónakennari metur umfang málsins með því að afla upplýsinga hjá þolanda, forráðamönnum hans, nemendum eða öðru starfsfólki. 

 • Umsjónakennari setur aðra kennara þolandans inn í málið og gerir foreldrum grein fyrir málinu. Veitir upplýsingar um úrræði sem þeim standa til boða skv. eðli málsins, svo sem viðtöl við námsráðgjafa skólans, félagsráðgjafa- og sálfræðiþjónustu skólaskrifstofu.  

 • Teknar eru ákvarðanir um aðgerðir sem tryggja öryggi tilkynnanda. Skólaliðar og annað starfsfólk er beðið um að fylgjast með málsaðilum í frímínútum, á göngum og í matsal ef þörf þykir. 

 • Teymið, í samráði við foreldra beggja aðila, leggur mat á frekari íhlutun/inngrip. 

Aðgerðir taka mið af: 

 •  Börnum sem hlut eiga að máli, aldri og kynnum af þeim 

 •  Alvarleika kvörtunarinnar 

 •  Hvort um sé að ræða nýtt mál 

Valdar verða leiðir sem eru minnst íþyngjandi miða við alvarleika kvörtunarinnar.


Í minna alvarlegum málum:  

 •  Foreldrar tali við barn/börn sín, kennari/námsráðgjafi ræði við börn 

 •  Fylgst verður með hegðun barnanna í bekknum/skólanum 

 •  Skólinn og foreldrar hafa samráð um hvaða leiðir skulu farnar ef vísbendingar eru um að gamalt mál sé að taka sig upp 

 •  Heimili og skóli skerpi á einstaka samskiptaþáttum við börnin á heimili og í skóla. 

Úrvinnsla eineltismála 

Í úrvinnslunni felst að hitta málsaðila og foreldra þeirra eins oft og nauðsyn krefst. Komið verður á eftirliti samhliða úrvinnslu málsins. Umsjónarkennari fylgist með framvindu málsins og veitir hegðun og framkomu umræddra barna sérstaka athygli. Eftirfylgni er haldið áfram óháð því hvort talið sé að eineltið hafi stöðvast. 

Leitað verði að undirliggjandi orsakaþáttum hjá geranda til að tryggja að hann láti af hegðuninni til framtíðar. 

Markmið úrvinnslunnar er a.m.k. fjórþætt: 

 • Að upplýsa málið 

 • Stöðva eineltið 

 • Styrkja þolanda og veita honum viðeigandi aðstoð 

 • Leita orsaka hjá geranda, vinna með vanda hans og aðstæður 

 

Í erfiðari málum er: 

 • Haldið áfram með úrvinnslu eins lengi og þörf þykir 

 • Rætt við aðra nemendur og vitni 

 • Markvissari eftirfylgd og eftirlit með aðilum 

 • Líðan þolanda könnuð daglega 

 • Rætt við geranda (gerendur) daglega 

 • Lagt mat á hvort leita þurfi utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar 

Samhliða úrvinnslu huga skóli og foreldrar að öðrum þáttum, s.s. hvernig forvörnum er háttað, hvernig samstarfi skóla og foreldra er háttað, hvort betrumbæta þurfi skólabrag og staðarmenningu 

Máli lýkur með formlegum hætti. Skipulögð er eftirfylgni og eftirlit í samráði við foreldra. Bekknum er veittur viðeigandi stuðningur 

Viðbragðsáætlun við einelti er endurskoðuð reglulega og endurbætt í samræmi við reynslu af fyrri eineltismálum. 

 

Ófullnægjandi lausn mála – önnur úrræði 

 

Sé málum svo háttað að skóli hafi ekki þau úrræði sem þarf til að ljúka máli með fullnægjandi hætti mun skóli leita annarra leiða. 

Skóli vísar fyrst máli til sveitarfélags sem tekur ákvörðun um hvernig unnið skal með málið. Ef ekki er unnt að leysa mál innan sveitarfélagsins er leitað til Menntamálastofnunar sem hér segir: 

Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 geta aðilar skólasamfélagsins (foreldrar og forráðamenn nemanda, nemandi, starfsfólk skóla, stjórnendur skóla), auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum, óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn, innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og skólaþjónustu sveitarfélaga. 

 

Endurskoðuð haust 2019. 

VIÐBURÐIR

© 2014 Grunnskóli Grundarfjaðar

 

350 GRUNDARFJÖRÐUR

GRUNNSKÓLINN GRUNDARFJARÐAR

Borgarbraut 19

Sími - 430 8550

Netfang - grunnskoli(hja)gfb.is


 

TÓNLISTARSKÓLINN - 430 8560

ÍÞRÓTTAHÚS - 430 8564