Farsæld barna

Þrepaskipt þjónusta
 
Skólastarf í Grundarfirði byggir m.a. á grunni farsældarlaga nr. 86/2021, sem miða að því að tryggja öllum börnum viðeigandi stuðning á réttum tíma og af réttum aðilum. Í lögunum er lögð áhersla á að þjónusta við börn skuli vera stigskipt og samræmd, þannig að óháð aðstæðum njóti þau sömu tækifæra til náms, þátttöku og þroska.
Þjónustan sem veitt er í skólakerfinu er skipulögð í þremur stigum og byggir á samvinnu skóla við aðra aðila innan sveitarfélagsins og þegar þörf er á,  einnig við heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þessi stigskipting tryggir sveigjanleika og nákvæma þjónustu við þarfir hvers barns.
 
Þrepin eru:
 
  1. Fyrsta stig: Almenn þjónusta sem öll börn eiga rétt á innan síns daglega umhverfis, t.d. innan skóla. Í Grundarfirði er tryggt að öll börn hafi aðgang að góðu námsumhverfi þar sem kennsluaðferðir og verkefni taka mið af fjölbreyttuhæfni nemenda og forvarnir. 
  2. Annað stig: Sérhæfðari stuðningur sem veittur er af sérfræðingum innan skólans eða sveitarfélagsins. Nemendur sem þurfa meiri stuðning en unnt er að veita innan ramma almennrar kennslu fá viðbótarstuðning, til dæmis í formi einstaklingsnámskrár, sérkennslu eða þjónustu frá fagfólki. Ef þörf krefur getur sveitarfélagið, í samráði við forsjáraðila, tilnefnt málstjóra til að halda utan um málið. 
  3. Þriðja stig: Flókin og samþætt þjónusta þar sem fleiri þjónustukerfi koma að, svo sem félags- eða heilbrigðisþjónusta. Málstjóri heldur þá utan um málið og tryggir samþætta þjónustu. Þetta stig er ætlað börnum sem glíma við margþættar og viðvarandi áskoranir í lífi sínu og þurfa samhæfðan stuðning frá fleiri aðilum.
Stigskiptingin tryggir að hvert barn fái þjónustu við hæfi. Samþætt þjónusta er grundvöllur stigskiptrar þjónustu og forsjáraðilar geta óskað eftir henni, meðal annars í gegnum vef sveitarfélagsins. 
Barnið getur verið á fleiri en einu þjónustustigi samtímis, allt eftir því hvaða þörfum þarf að mæta. Börn sem fá þjónustu á öðru eða þriðja stigi fá jafnframt almenna þjónustu á fyrsta stigi.
 
Samþætt þjónusta er alltaf veitt í samráði við forsjáraðila sem þurfa að samþykkja hana og geta afturkallað hana hvenær sem er.
 
 
Tengiliður við farsældina er G. Lilja Magnúsdóttir 
 
liljam@gfb.is