Á vordögum voru nemendur Eldhamra að vinna með bréfasendingar í útikennslu. Þau gerðu bæði flöskuskeyti og sendu bréf með póstinum. Þetta var skemmtilegt verkefni þar sem nemendur fræddust um það hvernig bréf komast frá einum stað til annars og hvað þarf að gera áður en hægt sé að póstleggja bréf. Það þurfti að kaupa frímerki, finna til umslag, finna heimilisfang og auðvitað skrifa bréf. Nemendur áttu að velja sér einhvern sem þau vildu skrifa bréf til og völdu að senda Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands bréf þar sem það hafði verið mikil umræða um forsetann og hans störf á deildinni um það leiti sem bréfaskrifin áttu sér stað. Þau sömdu textann sjálf en fengu aðstoð við að skrifa hann og teiknuðu fallegar myndir sem fengu að fylgja með bréfinu. Í útikennslutíma gekk svo allur hópurinn niður í búð og póstlögðu bréfið.
Nú á fyrstu dögum skólans barst svar frá Höllu Tómasdóttur með póstinum. Hún sendi handskrifað bréf sem hún þakkar fyrir bréfið og teikningarnar og svarar þeim spurningum sem nemendur höfðu spurt í bréfinu. Nú eru nemendur Eldhamra sem unnu að þessu verkefni í vor komin í 1. bekk og voru himinlifandi með svarbréfið frá forsetanum.