Frá Heimili og skóla

Kæru foreldrar og forsjáraðilar

Við viljum vekja athygli ykkar á nýrri birtingarmynd kynferðisbrota gegn börnum og unglingum sem vert er að vera vakandi fyrir. Komið hafa upp nokkur tilvik á síðustu vikum þar sem fullorðnir aðilar hafa verið að greiða ungmennum á grunnskólaaldri peninga fyrir kynferðislegar ljósmyndir. Leið þeirra að samskiptum við ungmennin er í flestum tilvikum í gegnum spjall á netinu og þá helst Snapchat og Instagram auk þess sem Tik tok og appið Telegram hafa verið nefnd. Börnum eru boðnar á bilinu 5.000- 10.000 krónur fyrir myndina og fer upphæðin eftir því hvað sést á myndinni og hversu skýr hún er. Greiðslur hafa farið fram í gegnum öpp eins og Aur og Kass.

Vitað er að fullorðnir aðilar sem kaupa ljósmyndir af börnum nota myndirnar stundum gegn þeim til að fá þau til að senda fleiri og grófari myndir. Eins reyna þessir aðilar stundum að nálgast börn á frekari hátt m.a. með því að gefa þeim gjafir og bjóðast til að gera þeim einhverskonar greiða. Þegar slíkt á sér stað er viðkomandi að reyna að mynda persónulegt samband við ungmennin, búa til sameiginlegt leyndarmál og aðilinn á þá inni hjá þeim fyrir vikið. Þetta er því miður þekkt leið í kynferðisbrotamálum gegn börnum, að bjóða þeim sælgæti, peninga eða aðrar gjafir til að vinna sér inn traust og velvilja. Það getur því reynst barni erfiðara að neita viðkomandi um kynferðislega greiða ef það hefur þegið gjafir eða peninga frá viðkomandi. Barnið getur upplifað skömm yfir fyrri samskiptum og því getur það reynst barni erfitt að segja frá því sem hefur gerst. Fullorðnir eru í valdastöðu gagnvart börnum og ábyrgðin er alfarið í höndum hins fullorðna aðila.

Börn geta upplifað sölu á nektarmyndum sem einfalda leið til að eignast smá pening án þess að gera sér nokkra grein fyrir hættunni. Vitað er að sum börn hafa stolið myndum af netinu og selt hinum fullorðnu en mikilvægt er að stöðva strax aðgengi þessara aðila að börnum.

Foreldrar geta farið yfir reikningsyfirlit barna sinna og athugað hvort ókunnugir aðilar hafa verið að leggja inn á börnin. Einnig er vert að vera á varðbergi ef barnið virðist eiga pening sem ekki er skýring á hvaðan kom (sum börn hafa látið millifæra á vini sína) og taka spjallið við barnið sitt um þennan veruleika. Barnið þarf að átta sig á hættunni án þess að það upplifi skömm. Það getur reynst fullorðnum auðvelt að afvegaleiða börn og börnin bera ekki ábyrgð á því. Reynið því frekar að mynda öruggt rými fyrir ykkar barn til að segja frá ef það þekkir til slíkra mála eða hefur orðið fyrir slíku sjálft. Ef börn segja frá eða þið hafið upplýsingar eða grun um mál af þessum toga þá getur verið um að ræða brot á hegningarlögum. Því ber að tilkynna málið tafarlaust til lögreglu og barnaverndar í síma 411 9200.