Fyrirkomulag skólastarfs næstu daga

Sæl öll

Síðustu daga höfum við unnið að því að undirbúa skólastarf við gjörbreyttar aðstæður. Í dag voru lagðar línur um skipulag skólastarfs næstu vikna. Það er ljóst að þó nokkur röskun verður á starfinu, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram um að vinna í samræmi þau fyrirmæli sem yfirvöld hafa lagt fyrir okkur og vöndum okkur við að útfæra þau, þó flækjustigið sé hátt.

Allt er þetta gert til að reyna að halda úti þjónustunni eins vel og lengi og við getum. Það er meginmarkmið okkar allra.

Útfærslan felst í því að aðskilja sem mest nemendur og starfsfólk. Í því skyni erum við búin að skipta okkur upp í 6 litla skóla inní skólanum okkar, ef svo má segja. Þannig reynum við að minnka líkur á krosssmiti. Nemendahóparnir mega ekki fara á milli svæða og við verðum að gæta þess að hóparnir blandist ekki.

Við tökum íþróttahúsið undir kennslu og breiðum þannig úr okkur.

Fyrirkomulag og kennslutími

Nemendum verður skipt niður á 5 innganga í skóla og íþróttahúsi og mun hver hópur fá sinn inngang. Þeir eru sem hér segir.

 • Nemendur í 1.-5. bekk mæta kl. 8:10:

○     1. bekkur notar starfsmannainngang uppi

○     2. bekkur notar sama inngang og vanalega, þ.e. Niðri.

○     3. bekkur kemur inn um sama inngang og vanalega, niðri

○     4.– 5. bekkur kemur inn um aðalinngang íþróttahússins, þar sem Steini Jobba hefur aðstöðu

 • Nemendur í 6. – 7. bekk mæta kl. 8:20 og nota sama inngang og vanalega, niðri
 • Nemendur í 8.- 10.  bekk mæta kl. 8:50 og koma stúkumegin í íþróttahúsinu 

Við þurfum að hleypa nemendahópunum út á mismunandi tímum.

 • Nemendur  í 1. – 7. bekk ljúka skóla á bilinu 12:50-13:10
 • Nemendur í 8. – 10. bekk verða til kl. 13:40.

Fyrirkomulagið verður til reynslu og við reynum að láta allt ganga sem best upp. Við útilokum þó ekki að frekari breytingar gæti þurft að gera. Við látum ykkur vita um slíkt eins fljótt og auðið er.

Nánar um fyrirkomulagið

 • Hádegismatur er í boði fyrir áskrifendur. Fyrirkomulag er í mótun.
 • Hafragrautur verður ekki í boði en skólinn mun bjóða öllum nemendum ávexti gjaldfrjálst þessa viku/r.
 • Íþróttakennsla fellur niður og verður útinám. Ekki er því þörf á íþróttafötum en nauðsynlegt er að nemendur komi klæddir eftir veðri: muna húfu, vettlinga og hlý föt.
 • Nemendur verða inni í frímínútum og fara í útiveru með kennurum.
 • Engar heimsóknir eru heimilar í skólahúsnæðið.
 • Gott væri ef nemendur myndu mæta með drykkjarbrúsa til að vera með í stofunni.
 • Nemendur á unglingastigi mega koma með fartölvu en skólinn á líka fartölvur sem nemendur geta nýtt.
 • List- og verkgreinar falla niður og munu nemendur verða í sinni stofu á þeim tíma.
 • Hver og einn bekkur hefur aðgang að sínu eigin salerni. 
 • Heilsdagsskólinn verður lokaður fyrst um sinn. 

Í fyrramálið hefjum við daginn á því að umsjónarkennarar og skólastjóri munu taka á móti nemendum og sýna þeim þeirra stofur/skóla.

Skipulagið er til reynslu þessa fyrstu daga. Við reynum að slípa til það sem betur má fara, að fenginni reynslu og verður nánara skipulag sent út á föstudag.

Heilsufar og mætingar

Foreldrum er í sjálfsvald sett hvort þeir halda börnum heima vegna aðstæðna eins og t.d. undirliggjandi sjúkdóma barnanna eða náinna ættingja

 • Nemendur mæta ekki með flensueinkenni
 • Ef barn er ekki nógu hresst þá mælumst til að foreldrar haldi því heima
 • Tilkynna þarf forföll nemenda eins og venjulega.

Nú skiptir öllu að standa saman. Það munu örugglega vakna fullt af spurningum, hjá ykkur og okkur. Við þökkum fyrir sýndan skilning og hlökkum til samstarfsins!

Vinnum þetta verkefni í góðri samvinnu og tökum einn dag í einu.

Með fyrirfram þökk, Stjórnendur, kennarar og starfsfólk Grunnskóla Grundarfjarðar.