Í lok nóvember hófst hugmyndavinna að jólablaði sem íslenskuverkefni hjá 7. bekk. Þá var farið í það hvað við myndum vilja sjá í jólablaði og svo var leitað til allra innan skólans þannig það eiga allir einhvern hluta af jólablaðinu. Eldhamrar, 3. og 4. bekkur, unglingastigið og starfsfólk svöruðu spurningum, 1. og 2. bekkur teiknuðu fyrir okkur jólamyndir, 5. bekkur gerðu fyrir okkur jólasögur, 7. bekkur sömdu jólaljóð og 6. bekkur svaraði spurningum um uppáhalds jólakökur, og birtast uppskriftir af þeim í blaðinu.
Nú í vikunni kom svo jólablaðið okkar út og erum við rosalega ánægð hvernig til tókst. Við byrjuðum á miðvikudaginn 17. desember á því að fara í sögumiðstöðina þar sem við afhentum Olgu og Pálma þrjú eintök af blaðinu sem verða geymd á bókasafninu og er því hægt að fletta því hjá þeim. Þar var Jóla molakaffi og voru margir mættir sem við spjölluðum við og áttum með þeim góðar stundir. Í dag föstudaginn 19. desember fórum við síðan í heimsókn til Bjargar á bæjarskrifstofuna þar sem við afhentum henni tvö eintök af jólablaðinu, sögðum henni frá vinnu við blaðið og hvað við lærðum á því að vinna blaðið. Björg tók vel á móti okkur og áttum við gott spjall við hana um hin ýmsu málefni.
Jólablaðið er nú komið á heimasíðu skólans og má finna það undir flipanum skólablað og verkefni. Við vonum að þið eigið eftir að njóta þess að lesa blaðið okkar. Myndir frá heimsóknum okkar við afhendingu blaðanna má finna hérna inni á myndasíðunni.