Sveitaferð 30. apríl 2024

1. og 2. bekkur fóru saman í sveitaferð þann 30. apríl og var ferðinni heitið að Kverná. Við löbbuðum reiðveginn í frekar hryssingslegu veðri. Þegar við komum á Kverná kom hópurinn saman og Halla fór yfir helstu reglur. Við fengum að sjá hund, hænur og helling af kindum og vorum meira að segja svo heppin að sjá kind bera. Og ekki bara eitt lamb heldur voru þau tvö sem skutust út úr kindinni á leifturhraða. Og það var heldur betur upplifun. Flestir vildu halda á lambi og sumir fengu að halda á hænu. Á heimleiðinni löbbuðum við meðfram Kverná og undir brúna. Það var mjög spennandi. Þetta var alveg meiri háttar og börnin öll til fyrirmyndar í umgengni við dýrin. Takk fyrir okkur.
Fleiri myndir inni á myndasíðu merkt "Sveitaferð 1. - 2. bekkur 30. apríl 2024.